top of page

Áburðargjöf og vökvun

Updated: May 15, 2024

Graslóð

Mosavöxtur í grasi virðist leika margann grátt en næringarskortur og þurrkur eru helstu orsakavaldar fyrir mosavexti. Einnig getur garðsláttur sem gengur of nærri rótarvexti grass aukið mosavöxt. Að mínu mati fær mosavaxin graslóð full mikla athygli og þá alltaf neikvæða virðist vera. Ég mæli eindregið með að leggja áherslu á að bæta grasvöxtinn með því að jarðvegsbæta og slá reglulega og forðast það að skera gras niður í svörðinn. Stundum virðist mosagróin svæði hreinlega þurfa meira álag, bjóddu vinum þínum að njóta garðsins eða hvettu krakkana í þínu lífi að leika sér. Tilvalið er að dreifa graskorni eða blákorni (3-4kg á 100fm) jafnt yfir graslóðina sem rignir svo niður í svörðinn. Í dagatalinu færðu áminningu að bera á þrisvar yfir sumarið og þá er gott að velja dag rétt fyrir rigningu þar svo áburðurinn brenni síður rætur grassins.

Rótgróin beð

Í rótgrónum beðum hafa plöntur náð að dreifa rótum sínum víðsvegar í moldinni og geta þá nálgast vatnsforðabúr dýpra og í ágætri fjarlægð, sama má segja með næringu. Hins vegar

er vert að skoða hvað eru margar plöntur í beðinu því fjöldi rótgróinna plantna geta verið í mikilli samkeppni. Ef beðið stendur undir beru lofti á Íslandi ætti vatnsforðinn að vera nægur en víða er moldin í rótgrónum beðum orðin talsvert næringarsnauður. Það má leysa með mánaðarlegri áburðargjöf með t.d. blákorni. Blákorn er sterkur áburður, því skal miða við minna en matskeið undir hvern gamlan runna og forðast að láta áburðinn snerta rætur eða laufblöð.  

1.Sá nytsami með nokkurra ára sólber, rauðrifs, hindber, graslauk eða hjálmlauk og 2.sá félagslegi með gömul jarðarber eða piparmyntu gefur mánaðarlega blákorn.


Við niðurplöntun trjáa og runna

Þegar þú hefur keypt tré eða runna og ætlar þér að planta um garðinn er gott að kaupa lífrænan massa, þörungarmjöl eða hænsaskít í leiðinni. Það er stendur skýrt á pakkningunum hvað þú skalt bæta við miklu undir hverja plöntu. Lífræni massinn er veikasta blandan og þarf meira magn undir hverja plöntu en hænsnaskíturinn er sterkastur og skal strá litlu undir hverja plöntu og helst  æta jarðvegi á milli hænsnaskíts og plöntunnar. Ef niðurplöntun á sér stað seint á haustin þarf síður að hafa áhyggjur af vökvun en aftur á móti vara ég við allri niðurplöntun í júlí því þá geta nýjar plöntur farið að líða vatnsskort nema þú treistir þér í að fylgja vökvun vel á eftir. Ef allt á vera öruggt er gott að venja sig á að grafa holu – fylla holuna helst tvisvar af vatni og leyfa því að seitla niður, bæta áburði í holuna, setja smá magn af mold ofan á áburð og planta plöntunni niður. Mundu að sumar plöntur vilja ekki áburð eins og ölur, geislasópur, hafþyrnir og margir fjölæringar sem vilja þurran jarðveg.

1.Sá nytsami sem plantar nýjum sólberjum, rauðrifsi, hindberjum, graslauk eða hjálmlauk og 2.Sá félagslegi með ný jarðarberjum eða piparmyntu nýta sér þessa aðferð.


Haustverk / Endurbæta mold í beði

Hægt er að kaupa frjóa mold sem er þá jafnan kölluð moltublönduð í heilum kerrrum og mætti bæta við ofan á beð eða í ný beð. Ef beðið er fullt af næringarsnauðri mold og fáar plöntur mæli ég með að bæta jarðveginn vel og þá helst á að hausti til. Með því að bæta nokkrum hjólbörum af hrossaskít eða moltu og blanda við núverandi mold fer þessi frjói áburður að brotna niður í frosti vetrarins og er fullkomin fyrir nýjar plöntu um vorið.

1.Sá nytsami með rabarbara-og/eða kartöflureit og svo 3.sá áhugasami og 4.sá natni með matjurtareit ættu helst að bæta reitina sína að hausti en kemur einnig til greina að vori sem er útskýrt hér beint fyrir neðan.  



Vorverk / endurbæta mold í beði

Ef þú mótar nýtt beð að vori eða endurplanta mest öllu í gamalt næringarsnautt er gott að stinga vel upp gömlu moldina og dreifa sveppamassa, þörungarmjöli eða hæsnaskít yfir allt beðið og blanda því í moldina. Þá geturðu plantað að vild en passaðu að fylgja eftir vökvun fyrst um sinn. Svona má einnig bæta jarðveg sem á að fara í potta og ker.

2.Sá félagslegi með krydd, klettasalat og gulrætur jarðvegsbætir á þennan hátt.


Ólíkar gerðir vökvunar

Allur gróður sem er nýplantanur þornar auðveldlega á sólarmiklum og vindasömum dögum. Því þarf að ákvarða sig hvernig þú ætlar þér að viðhalda góðum vatnsbúskap á þessum svæðum.

Handvökvun er þolinmæðisvinna og þá er mikilvægt að muna að vökva hverja plöntu vel svo rótarkerfið fái nægt vatnsforðabúr. Á heitum dögum er best að vökva á morgnana því þá fer allur rakinn til plantnanna en ekki í uppgufun í heitri sólinni. Ef handvökvun verður fyrir valinu er vissara að velta fyrir sér hvort slangan sé nægilega löng til að ná á svæðið og ef ekki, kannski geturðu bætt við nýjum vatnskrönum. Veltiúðari er staðsett fyrir miðju vökvunarsvæðisins og síðan nær vökvun í boga yfir tækið. Þetta er tengt við venjulega vatnsslöngu og fylgjast þarf vel með hvað úðarinn nær að bleyta stórt svæði, líklega þarftu að færa tækið eftir hálftíma og endurtaka leikinn aðeins lengra í beðinu. Ókosturinn er að dreifingin er takmörkuð ef það er mikill vindur á svæðinu. Seytlslanga/grátslanga er slanga sem seytlar úr um alla slönguna. Við vökvun er slangan lögð í þurrt beðið og skrúfað frá í hálftíma eða lengur. Vindur truflar seytlsslönguna ekki en vökvunin er einungis meðfram slöngunni en ekki í jafn mikilli breidd og veltiúðarinn býður upp á.



Frekari heimildir í fræðibókum :

Auður I. Ottesen. (2010). Matjurtir - handhægur leiðarvísir fyrir ræktendur. Sumarhúsið og garðurinn ehf. 

Bourne, Val. (2011). The ten-minute gardener's flowergrowing diary. Bantam press. 

Dowding, Charles. (2014). Organic gardening, the natural no-dig way. Green books.

Hildur Hákonardóttir. (2005). Æti garðurinn - handbók grasnytjungsins. Bókaútg. Salka ehf.  

Óli Valur Hansson. (1978). Matjurtabókin - Garðyrkjufélag Íslands, Prentsmiðjan Edda hf.

Vilmundur Kip Hansen. (2011). Árstíðir í garðinum. Sumarhúsið og garðurinn ehf.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon

© 2018 by S. Embla Heiðmarsdóttir. Proudly created with Wix.com

bottom of page