Mótun beða og uppsetning matjurtagarðs
- semblan92
- Feb 25, 2024
- 4 min read
Updated: May 15, 2024

Það er gott að minna sig á að garðhönnun á sér enga lokaútgáfu. Gróður vex með árunum og breytir mótun garðsins og svo þróast líka væntingar eigandans og notagildi garðsins. Nú styttist í nýtt sumar og þá er tilvalið að velta upp hvort garðurinn sé að nýtast eins vel og mætti. Á góðviðris degi er gott að ganga um garðinn og velta upp gróðrinum, eru gróðurbeðin nógu stór fyrir plönturnar eða hafa þær fyllt beðið og vilja meira rými ? Vilt þú að þau fái meira rými eða viltu frekar mjókka blómabeð og bæta við göngustíg eða grasi ?
Stækka eða búa til ný blómabeð
Plöntur í garðbeðum stækka með tímanum, það gott að rifja upp hvort beðin hafi verið vel troðin síðasta haust. Ef svo er þá er hægt að skipta upp plöntum í apríl eða stækka beðin með kantskera. Einnig er gott að velta fyrir sér tegundavali, viltu bæta við fleiri sígrænum tegundum, þekjandi gróðri eða vantar þig tegundir sem blómstra á einhverjum tímabilum. Ef þig vantar fleiri blómabeð getur verið gott að móta blómabeð undir trjám eða runnum sem hafa gras upp við börk. Það er betra fyrir plöntur að standa ekki í samkeppni við gras, einnig einfaldar það garðslátt og ver plönturnar fyrir slátturvélinni. Hér á mynd sést hvernig langbeð var orðið yfirfullt af plöntum og því var það breikkað um meter. Þá gat ég skipt upp fjölæringum og bætt við fleiri trjám og runnum í beðið. Sjá á mynd fyrir, í verki og á eftir.
Lífræna eða línuleg beð
Það kemur til greina að sníða beðin með beinum kant eða hafa lífrænt mótaðan kant. Beinar línur má móta með bandi milli tveggja tjaldhæla sem standa ofan í mold. Svo er hægt að skera með kantskera eftir bandinu. Lífrænar línur má móta með garðslöngu og skera meðfram henni. Svo má alltaf velja að loka beðum með greinum, grjóti eða hellum svo fátt eitt sé nefnt. Myndir hér fyrir ofan sýna hvernig beðið var mótað eftir garðslöngu.
Endurnýta grastorfur

Ég hvet þig til að endurnýta allt grastorf sem þú skerð burt innan garðsins. Þú getur nýtt það til að laga skallabletti í graslóð - skera upp skallabletti og móta torf í holuna. Beð sem þú nýtist þér illa og fyllist af arfa má loka fyrir með grastorfi. Það má einnig móta landslagið með afgangs grasi. Þegar ég stækkaði beðið um metra á breidd kom heilmikið afgangs grastorf og ég nýtti það til að fela gamlan trjábol og mynda þannig hól í annars flötum garði, eins og sjá má á mynd fyrir ofan í verki og fyrir neðan sést í hólinn fyrir aftan beð ári síðar.

Matjurtareitir
Sá nytsami planta fjölærum matjurtum sem gefa mikla uppskeru. Kartöflur, rabarbari og berjarunnar má allt rækta í sólmiklum rýmum í jaðri garðsins. Algengt var að velja rými baka til en aðgengið að svæðinu þarf þó að vera gott.
Sá félagslegi er lýsandi fyrir þá sem hafa lítið garðrými eða jafnvel einungis svalir. Pottar, ker og lítil beð nægir í slíka ræktun. Þeir sem eiga stærri garða geta vitanlega nýtt sér þennan flokk og þá mögulega hannað upphækkuð beð sólarmegin við aðal setsvæði fjölskyldunnar.
Svo eru það þriðji og fjórði flokkur sem leitast eftir fjölbreyttri uppskeru, hvort sem ræktað sé upp af fræi eða keypt forræktað. Velja þarf svæði sem er bæði aðgengilegt og fær mikla sól. Til að fá góða uppskeru er nauðsynlegt að reita allan arfa burt og láta þær aldrei líða vatnsskort. Ég mæli með að þú leggir metnað í að gera ræktunarsvæðið þægilegt og aðlaðandi fyrir þig. Þá er líklegra að þú náir að halda rútínu á ferðum þínum þangað og jafnvel gefið þér rólega stund milli stríða.
Nú er tíminn til að hanna þetta ræktunarsvæði og til að ræsa sköpunargáfuna er hér spurningarlisti sem nýtist þér við að móta þitt svæði.
Viltu ganga á grasi, hellum eða palli ?
Viltu upphækkaðan matjurtarkassa eða jarðlægt ræktunarbeð ?
Er stutt í vatnsstút eða þarf slöngu sem nær inn á svæðið ?
Viltu sitja á garðstól með borð og útvarp til að staldra enn lengur við ?
Viltu eitthvað aukalega; litla tjörn, jafnvel gosbrunn ?
Hvað með að hafa blómabeð til að horfa á ? Sumarblóm þá eða fjölæringar?
Síðan þarftu að velta fyrir þér stærðinni og magn uppskeru.
Mögulega er nóg að byrja á fjórum plöntum af hverri tegund, það má gróflega reikna 15-20 cm millibili milli hverrar plöntu og meta í haust hvort uppskera mætti vera meiri. Oft getur verið freistandi að gera strax almennilegt ræktunarsvæði og fylla það af matjurtum en því stærri moldarreitir því meiri vökvun, arfahreinsun og vinna bak við uppskeruna gæti gert verkefnið yfirþyrmandi. Frekar mæli ég með að byrja smátt og sjá hvað hentar þér.
Þegar þú hefur ákveðið uppsetningu matjurtasvæðisins geturðu byrjað að safna að þér því sem þú nýtir í upppbyggingunni. Mögulega geturðu nýtt gamla ræktunarreiti sem hafa næringarsnauða mold í reitunum og þá geturðu byrjað að gefa jarðveginum almennilega áburðargjöf sem er útskýrt í öðrum bloggi. Vissara er að athuga hvort bogar séu yfir einhverjum ræktunarreitanna sem hægt er að klæða acryldúk sem ver plöntur fyrir kálflugunni. Ef þú átt ekki gamla ræktunarreiti er fyrsta verk að byggja þá upp. Hér er grófur innkaupalisti til að koma þér af stað.
Timburefni í kassa
Trefjadúk í botninn
Efni í boga yfir ræktunarkassa
Acryldúkur
Vikur
Moltublönduð mold
Blákorn
Sveppamassa eða þörungarmjöl
Vatnsslöngur
Seytlslanga eða veltiúðari
Arfasköfu eða fíflaspjót
Hrífu og/eða skóflu
Hjólbörur
Comments