4. Sá natni í garðinum
- semblan92
- Jan 28, 2024
- 4 min read
Updated: Oct 8, 2024
Vetrarsáningar

Til að lengja ræktunartímabil matjurta er hægt að sá fræjum í ílát utandyra í febrúar. Með plastílátunum myndast rými sem hitnar í sólinni og fræin ná að spíra þrátt fyrir vond veður. Þetta gefur okkur sem hvorki eigum upphituð gróðurhús né nægilega góða aðstöðu í inniræktun tækifæri til að sá fyrir eigin jurtum. Lykilatriði er að plastílátin hafi dren í botni og gat að ofan svo rigning komist inn. Sumir ná að rækta í plastboxum sem hvorki hafa götu að ofan né neðan en þá má alls ekki gleymast að vökva ofan í boxið svo spírun geti átt sér stað.
Þessi aðferð virkar misvel á tegundir. Kíktu á pinterestsíðu Garðalífs Emblu ef þig vantar innblástur. Einnig er frábær facebookhópur sem heitir Vetrarsáning þar sem íslensk reynsla er skrásett. Ég mæli með að sá gulrótum, gulrófum, hnúðkáli og næpu í vetrarsáningu. Þetta eru tegundir sem þurfa oft lengra tímabil en sumarið gefur okkur og því tilvalið að gefa þeim færi á að byrja fyrr. Rótargrænmeti vill síður að hreyft sé við rótinni á litlum sáningum, því er vert að reyna að finna leið til að planta vetrarsáningum með því að ná allri moldinni án þess að hnjaska við sáningunum upp úr ílátinu í einu.
Sáningar innandyra

Sáningar innandyra er bæði hægt að gera í upphituðu gróðurhúsi eða inni í húsi. Í báðum tilfellum þarf ræktunarljós til að sáningar fái nægilega birtu yfir skammdegismánuðina á vorin. Hitastig þarf að vera stöðugt fyrir fræ að spíra s.s. ekki nálægt opnum gluggum né dragsúg. Best er að hafa stað sem þú getur haldið stöðugum á 18-20°C fyrstu vikur sáninganna en einnig hægt að kæla niður í 16°C fyrir t.d. káltegundirnar sem þola illa of mikinn hita eftir að spírun er hafin. Lýsing þarf að vera góð í um 16 klst á dag, það er hægt að kaupa ræktunarljós og tímastilli svo allt komist í rútínu. Þörf er á að vökva sáningar daglega eða annan hvern dag og því er öruggast að reyna að setja upp sáningarsvæði þar sem þú gengur framhjá daglega svo sáningarnar gleymist síður í dagsins amstri. Einnig er þörf á að kaupa ræktunarílát, undirbakka sem halda vatni frá borðplötunni, vökvunarkönnu, glært plast yfir sáningarbakkann eða gler, ræktunarmold og fræ.
Sáningar að vori beint út á beð
Sáningar eru gerðar beint út í reit þegar hitinn nær yfir 8°C og það er líklega um miðjan maí (ath sumar tegundir er dreifsáð í júní sem öndla illa kulda, sést á listanum fyrir neðan). Það er þægilegt að sá í langa potta eða upphækkuð beð. Best er að ákveða fyrir fram hvernig ræktun á sér stað í beðinu áður en hafist er handa við sáningu. Þar sem ákveðið er að sá er gott að sigta moldina til svo hún sé sérstaklega fín þar sem sáð verður, það auðveldar verkið. Flestum tegundum er dreifsáð í rásir og þarf að vera pláss fyrir hvert fræ að stækka (ef illa gengur að dreifsá er hægt að prikla burt frekar spírur). Síðan skaltu mynda 2ja cm djúpa rás í moldina og sá frekar dreift í rásina. Gott að bæta vikurlagi ofan á og síðan acryldúk fyrstu tvær vikurnar.
Kryddtegundir

Allt krydd á listanum nema basilikan er hægt að sá fyrir á vormánuðum og færa út í garð yfir sumartímann. Á listanum má sjá hvenær hægt er að sá fyrir tegundunum innandyra fyrir útisumarræktun en einnig hvet ég til þess að sá aftur á ný í október svo hægt sé að eiga kryddjurtir undir ræktunarljósi fyrir desembermatreiðsluna.
Basilika (Ocimum bacilicum) : 35cm há : Sá í mars, spírar fljótt.
Blóðberg (Thymus vulgaris) : 25cm há : Sá í mars, spírar hægt.
Dill (Anthum graveoleus) : 80cm há : Sá í apríl, spírar fljótt.
Kóriander (Coriandrum sativum L.) : 60cm há : sáð í apríl, spírar meðalhratt.
Origano (Origanum vulgaris ssp. hirtum) : 35cm há : Sá í mars, spírar fljótt.
Rósmarín (Rosmarinus officinalis) : 50cm há : Sá í mars, spírar hægt.
Steinselja (Petroselinum crispum) : 25cm há : Sá í mars, spírar meðalhratt.
Matjurtir
Blaðlauksfræ er erfitt að kaupa og því skal kaupa forræktað
Blómkál (Brassicaolearcea var. botrytis) : sáð í apríl, spírar meðalhratt – færa strax við spírun í kaldara rými. Planta út undir acryldúk í maí.
Grænkál (Brassica oleracea var. sabellica) : Sá í apríl, spírar meðalhratt – færa strax við spírun í kaldara rými. Planta út undir acryldúk í maí.
Gulrófa (Brassica napus var. napobrassica) : Sá beint út undir acryldúk í apríl.
Gulrót (Daucus carota) : Sá beint út undir acryldúk í apríl.
Hnúðkál (Brassica oleracea) : Sá beint út undir acryldúk í maí, spírar meðalhratt.
Klettasalat (Brassica eruca sativa) : Sáð beint út undir acryldúk í maí og endurtekið mánaðarlega. Sjá nánar í ræktun hins félagslega.
Næpa (Brassica rapa var. rapifera L.) : Sáð beint út undir acryldúk í júní.
Spergilkál (Brassica oleracea var. italica) : Sáð í apríl, spírar meðalhratt – færa strax við spírun í kaldara rými. Planta út undir acryldúk í maí.
Umhirða og uppskera
Farið er ítarlega yfir hvernig rækta skal hverja tegund fyrir sig í öðrum pistlum. Finndu plöntu sem þú vilt rækta hér fyrir neðan - * ef hún er stjörnumerkt hef ég skrifað um sáningarskilyrði hér fyrir ofan.
Berjarunnar | Gulrætur * | Blaðlaukur |
Kartöflur | Kryddjurtir * | Blómkál * |
Graslaukur | Jarðarber | Grænkál * |
Hjálmlaukur | Kletta-og blaðsalat * | Gulrófa * |
Rabarbari | Piparmynta | Hnúðkál * |
Hvítlaukur | ||
Matlaukur | ||
Næpa * | ||
Spergilkál * |
Frekari heimildir í fræðibókum :
Auður Rafnsdóttir. (2016). Kryddjurtarækt fyrir byrjendur. IÐUNN
Zia Allaway. (2018). Inniræktun matjurta. VAKA-HELGAFELL
Óli Valur Hansson. (1978). Matjurtabókin - Garðyrkjufélag Íslands, Prentsmiðjan Edda hf.
Vilmundur Kip Hansen. (2011). Árstíðir í garðinum. Sumarhúsið og garðurinn ehf
Comments