Umhirða fjölæringa
- semblan92
- Mar 30, 2024
- 5 min read
Updated: May 15, 2024

Fjölæringar eru jurtakennd blóm sem lifa ár eftir ár, þeir bæði lifa mislengi og höndla misvel íslenskt veðurfar. Í gömlum görðum leynast oft ýmsar tegundir fjölæringa eins og geitaskegg, regnfang, mjaðjurt, valmúi og bóndarós, ef slíkt er í þínum garði má með sönnu segja að þetta séu harðgerðar. Fjölæringar voru lengi mun vinsælli á Íslandi en þeir eru í dag en hafa fengið góðan byr undir vængi hjá nágrannaþjóðum okkar.
Ef þú hefur áhuga þá skrifaði ég ritgerð um notkun fjölæringa bæði hérlendis og erlendis sem er opin öllum á skemmunni, ýttu á hnappinn fyrir ritgerð.
Fjölæringar vaxa á ólíkan máta, sumir sá sér áfram um beðin, aðrir mynda rótarskot og dreifa sér um beðið en margir þeirra nýta orku sína í að stækka rótarkerfi sitt á sínum upprunalega stað og með árunum stækkar blaðmassi fjölæringsins og blómum sömuleiðis. Oft mætti nýta fjölæringa í stað sumarblóma og þannig spara sér þann árlega kostnað en það krefst þess að eigandi þeirra þekki þá í sundur og kunni að hirða um þá.
Vorhreinsun

Á vorin er þörf á því að hreinsa dauðan blaðmassann ofan af fjölæringunum sem staðið hafa upp úr jörðu yfir veturinn en orkubúskapurinn er löngu farinn úr blaðmassa og liggur í hýði í rótarkerfinu. Með því að fjarlægja blaðmassann í apríl og maí kemur yfirleitt í ljós að nýr blaðvöxtur er hafinn sem vex enn frekar ef sólarljós nær niður að plöntunni. Allt þetta gamla frá plöntunni mun fljótlega verða að mold og því er gott að finna því stað í moltu eða undir stórum runnum, þar sem það færi frið til að molna niður. Einnig er gott að fjarlægja dauð laufblöð sem fela nýjan vöxt plantnanna, þannig fá þær bæði betri birtu og meira svigrúm til að vaxa í vor.
Fjölgun fjölæringa

Skipting : Þær tegundir þar sem rótarkerfið vex staðbundið með árunum er gott að fjölga á vorin eða á haustin. Oft hentar betur fyrir byrjendur að skipta upp plöntunum sínum á haustin, því þá er enn í fersku minni hvar hvaða planta er staðsett í beðinu. Sumar tegundir virðast síður þurfa skiptingu en aðrar sýna það mjög vel að komin er samkeppni um rótarpláss og næringu. Það lýsir sér t.d. með því að plantan er farin að mynda skallablett í miðri gróskunni yfir mitt sumarið eða plantan er ofvaxin og gróskan fellur á hliðina áður en byrjað er að hausta. Þá er best að taka sér stunguskóflu að hausti/vori og skera plöntuna í sundir, fyrst í tvo helminga og svo aftur í tvo. Hver planta skal vera með gott rótarkerfi og helst einhvern blaðvöxt áfastan við ræturnar. Svo skal grafa alla parta upp úr jörðinni og gefa þeim nýtt vaxtarsvæði, annars staðar í beðinu eða í pott. Sumir myndu grafa plöntuna upp í einni heild og síðan skipta henni upp, fólk velur sér sína leið. Dæmi um tegundir: Rabarbari, graslaukur, stóriburkni, geitaskegg, gullhnappur og silfursóley sem sjá má á mynd fyrir ofan.
Ef þú ert óviss hvort hægt sé að skipta plöntu skaltu rýna í svörðinn og athuga magn sprota sem koma upp úr jörðu. Hver hnaus eftir skiptingu skal vera með nokkrar sprota ásamt samofnu rótarkerfi eins og sjá má á mynd af blóðkolli fyrir neðan til vinstri. Ef plantan stendur uppi á örfáum sprotum eða jafnvel einum sprota þá höndlar hún ekki skiptingu eins og má á mynd fyrir neðan af gulvendi til hægri.
Rótarskot : Heilmargar tegundir fjölæringa dreifa út sér í mismikilli fjarlægð frá móðurplöntu sinni. Þetta gerir fjölgun enn þægilegri og í raun nauðsynlegri til að plantan verði ekki of frek og dreifi úr sér um beðin. Þá er nóg að stinga stunguskóflunni niður þar sem þú vilt að fjölæringurinn afmarkist og grafa upp þann part sem á að fjarlægja. Þessi eiginleiki getur verið mjög þreytandi og vert að hafa það í huga við kaup plantna hvort þær fjölgi sér með þessum hætti. Áður en plöntur með þessum eiginleikar eru keyptar er gott að hugsa sér hvort hún megi fjölga sér og dreifa sér um beðin eða hvort þú plantir henni frekar á afmörkuð svæði eins og ker þar sem þú nærð að stýra henni betur. Dæmi um tegundir: Venusvagn, elínarlykill, Piparmynta, jarðarber (mynda reyndar rótarskot ofan jarðar en hægt að fjölga á sama hátt).

Sjálfsáningar : Margar mjög blómfagrar tegundir sá sér áfram í garðinum auk þess sem flestar tegundir arfa gera slíkt hið sama. Því er þetta oft flækt saman og fólk ergir sig á öllum tegundum sem sá sér áfram. Ég mæli með að plöntueigendur þekki sínar tegundir og sérstaklega þær tegundir sem sá sér með sjálfsáningum. Þær geta vissulega verið ágengar og þess verðugar að útrýma úr garðinum, en margar þeirra standa stutt yfir og geta jafnvel verið fullkomin samkeppni við raunverulegan arfa í garðinum. Ég hef nokkrar tegundir sjálfsáninga sem fá að standa í garðinum og gleðja augað þar til þær hafa klárað sinn blómgunarferil, s.s. vatnsberi, fingurbjargarblóm, gleym-mér-ei og næturfjóla standa þannig í beðunum og loka fyrir moldarrými sem annars hefði verið opið fyrir dúnurtina, lambagrasið og fífla. Hver og einn getur valið sér nokkrar slíkar tegundir sem fá rými til að dreifa úr sér í garðinum.

Blómvendir úr sjálfsáningum
Ef þú kaupir blómfagra tegund og sérð eftir á að hún er farin að poppa upp víðar í beðinu ertu greinilega komin með sjálfsáningartegund. Ég mæli þá líka með að þú punktir hjá þér hvaða tegund hagar sér svona og klippa þá öll blómin af henni á næsta ári áður en blómin fara að mynda fræ og sá sér áfram. Endilega gefðu þessum blómum nýtt hlutverk sem blómvöndur inn í húsi. Að klippa í sinn eigin blómvönd er eitthvað sem hver garðeigandi ætti að gera í hverjum sumarmánuði. Þannig færir þú gleði garðsins inn í hús og jafnvel gefur þér tækifæri til að gefa heppnum vini part af garðinum þínum. Þetta getur verið frábær æfing fyrir þig og börn í þínu lífi að læra að meta hvað passar vel saman í vasa og hvernig skal taka aðeins örlítið af blómum frá býflugunum sem nýta sér blómin í garðinum.
Sumarklipping / Nonnaklipping
Fyrr á árinu kom út blogg um klippingar á trjám og runnum, þar kemur fram að með reglulegri klippingu færðu þéttari runna sem myndar betri uppbyggingu og blómstrun eykst. Fjölæringar aftur á móti leggjast í dvala á hverju hausti og þétting plöntunnar gerist helst þegar rótarkerfið hefur stækkað og myndað stærri og blaðmeiri einstakling. Það hentar samt sumum fjölæringum að klippa þá til svo úr verði þéttari planta með fleiri blómknúppa. Bretarnir kallað það Chelsea cut og fara þeir þá um miðjan maí þegar stóra garðasýningin í Chelsea er í gangi að klippa niður stóra fjölæringa í 20 cm hæð og auka þannig blaðvöxtinn. Þetta virkar vel á tegundir sem eiga það til að mynda mjóa og renglulega stilka sem standa varla undir blómum sínum. Íslensk sumur eru aðeins seinna á ferðinni og því mæli ég með að gera þetta um miðjan júní eða hreinlega nýta 17.júní. Mögulega væri hægt að þýða Chelsea Cut í Nonnaklipping í höfuð Jóns Sigurðssonar.
Klipping dauðra blómknúppa
Blómstrun fjölæringa, sumarblóma og í raun trjáa og runna líka er stærsta verkefni plantanna yfir árið. Þess vegna eru þessar tegundir yfirleitt með varaplan ef einhver blóm falla í valin, þá yfirleitt með því að bæta blómi í skarðið ef eitt fellur frá. Þar sem við sækjumst eftir að hafa alla plöntuna blómlega mæli ég með að klippa öll blóm sem eru orðin ljót og draga orku frá plöntunni eins og mætti gera við roðakollinn á mynd fyrir neðan. Oft geturðu jafnvel séð að plantan er farin að mynda nýtt blóm neðar á sama stilk og bíður eftir betri birtu og rými til að vaxa upp. Ég mæli með að blómeigendur gangi um garðinn daglega með skæri og klippi burt dauð blóm af sumarblómum og fjölæringum. Með þessu lengist blómstrunartími plantanna í garðinum og gerir plöntukaupin enn hagstæðari. Fyrir mér gefur þetta verkefni manni tækifæri á að rýna í blómin oftar en annars og kemur manni í meiri tengingu við plönturnar á þessum fallegustu garðvikum ársins.

Comments