Trjá-og runnaklippingar
- semblan92
- Dec 16, 2023
- 4 min read
Updated: May 15, 2024

Trjá- og runnaklippingar er gott að gera að vetrarlagi, ástæðan er sú að orkubúskapur trjáa og runna er í rótarkerfinu að vetrarlagi. En á sumrin er orkubúskapurinn í laufblöðunum og því ætti síður að klippa plöntur þar sem það fjarlægir meiripart orku plöntunnar. Sumarklippinar skulu vera í algeru lágmarki.
Trjáklippingar er ekki oft gerðar í grónum görðum, það þarf þó að gera endurtekið ef trén eru staðsett of nálægt húsi eða öðrum hlutum. Gott er að nýta vetrartímann í að skoða greinabyggingu trjánna í garðinum. Nú skaltu standa þannig að þú sjáir vel allar greinar plöntunnar og rýna í greinabygginguna. Fyrst skal fjarlægja allar dauðar greinar. Greinar sem snerta aðrar greinar eru kallaðar krosslægjur og slíkt þarf alltaf að leysa – því bæði mynda þær nuddsár á báðar greinar í vindi og að lokum geta þær gróið saman sem bætir aldrei heilbrigði trés. Því er gott að stíga til baka og skoða hvar eru krosslægjur og hvorri greininni þurfi að fórna (sú sem stendur beint upp í loft er líklega sú sem þarf að fjúka). Að lokum er gott að reyna að reikna út hvernig plantan ætlar sér að vaxa áfram og hvort hún fái nægilega birtu og svigrúm til næstu ára. Það er best að grípa inn í vandamál trjáa áður en plönturnar vaxa frekar, því minni sem greinarnar eru þegar þær eru fjarlægðar því auðveldara er fyrir plöntuna að loka sárinu.
Ung runnahekk þarf ekki að klippa fyrstu tvö til þrjú árin eftir niðurplöntun, nema toppategundir sem vex svo hratt að það má byrja klippingu á öðru ári. Til að móta beina línu í hekki er gott að klippa meðfram beinni línu, gott er að stinga trjásköftum ofan í jörðu sitthvoru megin við hekk með sömu lengd frá hekki og strengja band á milli þeirra í sömu hæð.

Meðalgamalt og heilbrigt runnahekk skal móta árlega snemma árs (tilvalið í febrúar og fram að laufgun). Eftir að plantan hefur laufgast á aðeins að snyrta hekk til að viðhalda línunni. Til að viðhalda heilbrigðu og þéttu hekki er þörf á að hekkklippa þrisvar til fjórum sinnum á ári, frá janúar og út júlí.
Ungir stakstæðir runnar þurfa litla klippingu fyrstu tvö árin eftir niðurplöntun en ef greinabyggingin er á rangri leið (s.s. myndar ekki kúlu eða þekjuplöntur sem vísa einungis í eina átt) þá má stífa greinar allt að 1/3 af hverri grein til að móta plöntuna, klippt skal þá niður að næsta útlæga brumi. Brum sjást víða á greinum og munu verða að greinum eða laufblöðum. Ef klippt er næst brumi mun það örugglega verða að grein í stað þeirra sem var tekin. Ef klippt er að útlægju brumi sem vísar frá runna erum við að stýra því að ný grein vaxi út og stækki runnann frekar en verða að krosslægju inni í greinabyggingu.

Viðhaldsklipping stakstæðra runna í grónum garði skal gera í febrúar. Best er að gefa sér tíma á góðviðris degi og ganga um garðinn með handklippur og greinaklippur og rýna í vöxt hvers runna. Ef um meðalgamla runna er að ræða getur verið gott að fara yfir þennan gátlista ; klippa dauðar greinar fyrst, krosslægðar greinar og það sem kallast "vatnsskot" en það er þegar grein vex beint upp ólíkt öðrum greinum runnans sem vaxa með mjúkum bogadregnum hætti.
Endurnýjunun gamalla runna getur verið besta ráðið ef þeir eru farnir að vaxa langt út á graslóð og mikið af dauðum greinum inn á milli. Vissara er að taka slíkar klippingar í janúar-mars áður en vöxtur hefst. Slíka endurnýjun er vissara að taka í nokkrum hollum. Þá er hægt að klippa dauðar greinar og stífa elstu greinarnar niður sem er síðan endurtekið á næsta ári þegar nýr vöxtur er hafinn. Tegundir sem höndla slíka meðferð eru t.d. sýrenur, víðir og toppar, einnig er hægt að gera slíkt við gömul birki-,reyni- eða grenihekk. Ef þú átt hins vegar gamalt víði-, gljámispils- eða fjallarifshekk sem þarf að endurnýja, höndla þessar tegundir að allt sé klippt niður í 20 cm hæð að síðvetri.
Runnar með rótarskot fjölga greinum sem vaxa upp úr jörðu árlega og jafnvel endast greinar aðeins í nokkur ár, þá er gott að klippa allt dautt og gamalt niður að jörðu svo það myndist pláss fyrir birtu og loftrými. Þegar plantan skýtur rótum fram úr þínum væntingum er hægt að stinga á rótarskotin og fjarlægja burt. Þetta á við um tegundir eins og snjóber, dögglingskvistur, reyniblaðka og hindber.
Vandasamar tegundir höndla illa klippingu og því er betra að klippa lítið í einu og hver klipping er gerð með það í huga að greinin mun skipta sér og mynda þéttari greinavöxt. Þá er mikilvægt að klippa helst einungis af nýjum vexti og þá að næsta útstæða brumi. Tegundir eins og skriðmispill, geislasópur, himalajaeinir og íslenskur einir. Vert er að nefna að skrúðgarðyrkjumenn og garðyrkjufræðingar hafa margir reynslu til fleiri ára í að klippa garðagróður. Ef þú flytur í nýtt hús með miklum gróðri mæli ég eindregið með að finna sér góðan fagmann til að kynna þig fyrir gróðrinum og taka fyrstu klippingarnar að sér. Með tímanum ætti það að vera skýrara fyrir þér hvernig skal klippa einstaka plöntur og þú getur tekið við keflinu.
Frekari heimildir í fræðibókum :
Ásgeir Svanbergsson. (1989). Tré og runnar - handbók ræktunarmannsins. Örn og Örlygur hf.
Steinn Kárason. (1994). Trjáklippingar. Garðyrkjumeistarinn, Reykjavík.
Comments