top of page

2. Sá félagslegi í garðinum

Updated: Oct 8, 2024

ree

Sá áhugasami hefur takmarkað garðsvæði hvort sem einungis lítin garð eða svalir en vill geta ræktað beint í matargerð á einfaldan máta.

Kryddjurtir

Til eru ýmsar tegundir kryddjurta sem hægt er að rækta hérlendis en áður en hafist er handa að kaupa þær allar skal spyrja sig hvaða tegundir eru að fara að nýtast í þinni matargerð. Vonandi hjálpar þessi listi eitthvað við valið.

  • Fisk- og grænmetisréttir : Basilika, dill, salvia og steinselja.

  • Grillað lamb og villibráð : Majoran, rósmarín og blóðberg/timían

  • Guacamole eða karrýréttir : Kóríander

  • Súpur og sósur : Rósmarín, origano og majoran.

  • Ítalskt pasta og pizza : Origano

  • Pestó : Steinselja, graslaukur, origano og blóðberg. 

Niðurplöntun kryddjurta skal vera í frjórri og meðalrakri mold í sól og skjólgóðum stað í garðinum. Nema basilikan sem þarf að rækta inni í sólarglugga í 20°C og rósmarín sem vex vel úti en vill þurran og rýran jarðveg. Kryddjurtir þrífast best ef klippt er af nývextinum og nýtt í matargerð á nokkurra daga fresti. Því er vissara að velja sýnilegan stað fyrir ræktun þessara plantna og helst að fara daglega, vökva þær með áburðarlausn og fylgjast með þeim í gegnum sumartímann. Svalir eru tilvalinn staður fyrir þessa ræktun. Hægt er að kaupa kryddjurtir í pottum í gróðrarstöðvum, garðverslana og sumum matvöruverslunum. Þær þola ekki næturkulda og því er góð regla að setja kryddjurtir ekki út fyrr en 17. júní.


Uppskera má daglega eða eftir þörfum í júní til ágúst. Það fer aðeins eftir því hvað plöntunum gengur vel að vaxa á milli. Allar þurfa þær að hafa nóg af blöðum til að ljósstillífa áfram á milli klippinga. Tegundirnar eru all flestar klipptar neðarlega á nýjum vexti (ljósari á lit en neðri sprotar) og best er að klippa rétt ofan við næstu axlarblað. Með því er líklegt að axlarblaðið muni mynda tvo nýja sprota og þar með þéttir plantan sig. Það er mislangt á milli blaðpara á kryddjurtum en ef langt er á milli blaða er vissara að vanda vel hvar skal klippa svo plantan haldi áfram að vaxa og þétta sig, en þær sem hafa styttra á milli blaðpara eiga auðveldara með vöxt eftir klippingar. Kíktu á pinterest síðu Garðalífs Emblu ef þig vantar að sjá þetta myndrænna.  


Geymsluaðferðir skal huga að áður en kólna fer í veðri, líklegast í ágúst. Til eru ýmsar leiðir til þess :

  • Frysta þær í matarolíu í klakabox og nýta beint á pönnuna.

  • Bragðbæta matarolíu og geyma í krukkum.

  • Hengja þær til þerris í 1-2 vikur og strá yfir rétti.

  • Raða þeim á ofnplöntu, baka í ofni á 70°C í um klukkustund og geyma í lokuðum krukkum.

  • Einnig er hægt að stinga stilkum niður í ílát með vatni og nýta blöðin sem standa upp úr ferska í rétti, þessi aðferð nýtist einungis í takmarkaðan tíma og þarf að skipta um vatn reglulega.

  • Svo eru til ýmsar leiðir til að rækta kryddjurtirnar innandyra yfir veturinn, þá þarf að gefa þeim nægan birtu, jafnvel kaupa ræktunarljós. Reyndu að velja stað sem er ekki of heitur né hefur miklar hitabreytingar (eins og nálægt útihurðum eða opnum gluggum).

Fjölgun er möguleg á flestum kryddjurtum þá eru 20 cm langir stilkar klipptir og sett í vatnsglas þar til plönturnar fara að mynda rætur. Þá er þeim plantað í mold og þannig færðu nýja plöntu. Algengt er að þetta sé gert á basiliku, rósmarín og origano svo eitthvað sé nefnt, en það sakar heldur ekki að prófa sig áfram ef þig langar að fjölga fleiri tegundum á þennan hátt.

Jarðarber

Fragaria x ananassa

ree

Niðurplöntun í maí er hægt að gera á ýmsan hátt, lykilatriðið er að það sé dren í botninum, næg mold að rótarkerfi og að berin hangi helst í lausu lofti til að minnka líkur á myglu eða að sniglar nái til þeirra. Endilega kíktu á Pinterest-síðu Garðalífs til að fá hugmyndir um hvernig hægt er að rækta. Hægt er að kaupa jarðarberjaplöntur víða og svo skaltu ákveða hvort þú ætlir að jarðvegsbæta moldina með sveppamassa eða þörungarmjöli við niðurplöntun eða vökva plönturnar með áburðarlausn yfir allt sumarið.


Umhirða að sumri hefst þegar blómgun er í maí en þá þarf að hjálpa þeim við frjóvgun. Vindurinn og býflugurnar munu frjóvga flest en fyrir örugga uppskeru skaltu velja þurran dag til að pensla með sama penslinum inni í hvert blóm á öllum plöntunum. Svo hefst aldinvöxtur mánuði síðar og þá þolir plantan enga samkeppni. Því skaltu passa að plantan hafi næra næringu, vatn og birtu. Ef berin liggja í mold geturðu reynt að lyfta þeim upp eða setja eitthvað undir berið til að skýla því fyrir myglu og sniglum. Ef blaðvöxtur er of mikill og skýlir berjunum skaltu velja þér nokkur stór til að klippa burt svo birta nái vel inn að berjum.


Fjölgun að sumri er hægt að gera þegar plantan fer að mynda rótarskot ofanjarðar en það er orkukrefjandi fyrir plöntuna og minnkar aldinvöxt. Þrátt fyrir að jarðarberjaplöntur séu fjölærar er best að endurnýja plönturnar á þriggja ára fresti og besta leiðin er að leita á þessum rótarskotum eftir rótum og planta þessum rótum í mold. Þegar plantan fer að róta sig almennilega og mynda blaðbrúsk er hægt að klippa plöntuna frá móðurplöntunni. Þegar þú hefur endurplantað nægju þína af rótarskotum er best að klippa restina af þessum rótarskotstilkum af móðurplöntunni svo hún eyði ekki óþarfa orku í framleiðslu þeirra og minnkar um leið uppskeru.


Uppskera hefst þegar berin fara að roðna í ágúst, þá er best að tína þau af á morgnana og einungis taka rauðu berin af og endurtaka reglulega. Með þessum reglulegu heimsóknum í jarðarberjabeðið skaltu fylgjast með hvaða plöntur gefa litla uppskeru. Það er óþarfi að eyða plássi í slíkar plöntur og best er að fjarlægja þær og planta nýjum plöntum. Mögulega hefur þú tínt rótarskot af jarðarberjum í fyrra og ef sú ræktun gekk vel geturðu endurnýjað með þinni eigin ræktun í þessi tómu hólf.


Piparmynta

Mentha spicata x piperita

Myntutegundirnar eru orðnar mjög margar en hér verða einungis tvær nefndar sem er sú grænblaða sem oftast er kölluð mynta og nýtist best í mojitodrykki en sú rauðblaða er kölluð piparmynta og nýtist betur í te. Vanda þarf valið hvar rækta skal mynduplöntur því þær skríða áfram í beðum.


Niðurplöntun er hægt að gera um leið og kaup á plöntunum hefst, líklega í maí. Þá hefur þú líklega valið góðan stað þar sem plantan má skríða um beð eða planta plöntunni í stóran pott sem grafinn er í beð. Ef myntu er plantað í beð skaltu hafa það í huga að þú þurfir að stinga utan af henni reglulega til að halda henni í skefjum.


Uppskera hefst í júní þegar blaðstilkar hafa náð 40-50 cm hæð, þá skal klippa þá niður svo munar 2/3 af hæð hennar. Skola skal vel af stilkum og nýta ferska í heita eða kalda drykki. Ef þú átt mikla uppskeru skaltu leggja stilkana til þerris á þurrkgrind, svo lofti vel á milli stilkanna. Þegar þeir eru orðnir snertiþurrir en ekki harðið er gott að losa öll blöð af stilkunum og stinga í pappabox, þar þorna þau alveg og nýtast þurr í te. Ef sumarið er hlýtt og plönturnar fá næga næringu og vökvun er líklegt að þú getir endurtekið uppskeru mánuði síðar og jafnvel í þriðja sinn.


Fjölgun í september er hægt að gera ef plantan hefur vaxið hjá þér í nokkur ár. Þá er líklegt að hún sé byrjuð að skríða áfram í beði og þá geturðu auðveldlega stungið upp ystu rótarskotin og þegar þú sérð móta fyrir stakri plöntu (þ.e. stilk með uppvöxt og rótarvöxt) geturðu klippt hann í burtu frá rótarskotinu og plantað í pott með næringarríkri mold. Gott að vökva vel og geyma þar til einhver áhugasamur tedrykkjugestur eða mojitounnandi kemur í heimsókn næsta vor.


Klettasalat/Blaðsalat

Brassica eruca sativa/ Brassica diplotaxis tenuifolia

Sáningar eru gerðar beint út í reit þegar hitinn nær yfir 8°C og það er líklega um miðjan maí. Það er þægilegt að sá í langa potta eða upphækkuð beð, kosturinn við þau er að ólíklegra er að sniglar fari í upphækkuð beð og vinnuhæðin er þægilegri. Best er að ákveða fyrir fram hvernig ræktun á sér stað í beðinu áður en hafist er handa við sáningu. Salatsræktun tekur 5-8 vikur og því skal reikna með að sá fyrstu umferð núna og eftir mánuð verður byrjað á sáningu númer tvö rétt áður en uppskera fyrstu sáningar hefst. Þú þarft því að reikna með plássi fyrir tvær sáningarlínur. Jafnvel þriðju og fjórðu ef þú ætlar þér að sá fyrir gulrótum líka (sjá neðar). Best er að byrja á að vökva moldina fyrir sáningu, mynda síðan 2ja cm djúpa rás í moldina og sá frekar dreift í rásina. Passaðu þig að sá einungis 1/3 af fræjunum í pokanum og geymdu síðan pokann á þurrum stað innandyra. Það er gott að skella acryldúk yfir sáningarnar fyrstu tvær vikurnar en fylgjast vel með vökvun og mögulegum arfa.


Uppskera hefst mánuði eftir sáningu eða þegar salatbllöðin fara að mynda blaðbrúsk sem hægt er að nýta í salat. Góð regla er að taka stærstu blöðin af og reyna að taka lítið af hverri plöntu svo þær geti ljóstillífað í gegnum restina af blöðunum og haldið áfram að stækka. Í byrjun júlí ættir þú að vera búin að fullnýta salatið úr fyrstu sáningu og önnur sáningin alveg að verða tilbúin til uppskeru. Þá þarf að grafa upp rótarkerfi fyrstu sáningarrásar til að hafa pláss fyrir þriðju og síðustu sáningu.

Gulrætur

Daucus carota

Sáningar eru gerðar beint út í reit þegar hitinn nær yfir 8°C og það er líklega um miðjan maí. Það er þægilegt að sá í langa potta eða upphækkuð beð með klettasalati (ath ef upphækkuð beð eru ekki djúp er vissara að velja kúlulaga yrki „Paris“). Best er að ákveða fyrir fram hvernig ræktun á sér stað í beðinu áður en hafist er handa við sáningu. Gulrótum er dreifsáð í rásir og þarf að vera pláss fyrir hverja þeirra að vaxa. Síðan skaltu mynda 2ja cm djúpa rás í moldina og sá frekar dreift í rásina. Það er gott að skella acryldúk yfir sáningarnar fyrstu tvær vikurnar en fylgjast vel með vökvun og mögulegum arfa.


Umhirða að sumri er fyrst og fremst vökvun með áburðarlausn og ef rótin fer að kíkja upp úr jörðu skaltu hreykja yfir hana með mold, annars verða þær grænar og bragðvondar. Vissara er að arfahreinsa mánaðarlega til að bæta uppskeru.


Uppskera hefst í ágúst – september þegar gulræturnar eru farnar að kíkja upp úr moldinni, þá geturðu kippt einni upp og séð stærðina. Ef stærðin er ágæt geturðu byrjað á að tína upp aðra hverja gulrót og þar með gefa restinni meira pláss til að vaxa. Þær þola illa að þorna svo ef ske kynni að þú klárir ekki uppskeruna ferska skaltu geyma hana í miklum raka í köldum skugga.


Vetrarsáningar er hægt að gera í febrúar en það gæti gefið okkur meiri uppskeru á stuttum sumrum. Frekari fræðsla má finna kafla um þann natna í garðinum / Vetrarsáningar.

Frekari heimildir í fræðibókum :

Auður Rafnsdóttir. (2016). Kryddjurtarækt fyrir byrjendur. IÐUNN

Zia Allaway. (2018). Inniræktun matjurta. VAKA-HELGAFELL

Hildur Hákonardóttir. (2005). Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins. Bókaútgáfan Salka ehf.  

Óli Valur Hansson. (1978). Matjurtabókin - Garðyrkjufélag Íslands, Prentsmiðjan Edda hf.

Vilmundur Kip Hansen. (2011). Árstíðir í garðinum. Sumarhúsið og garðurinn ehf

 

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon

© 2018 by S. Embla Heiðmarsdóttir. Proudly created with Wix.com

bottom of page