1. Sá nytsami í garðinum
- semblan92
- Dec 26, 2023
- 8 min read
Updated: Oct 8, 2024

Nýtir garðinn í ræktun matjurta sem gefa mikla uppskeru en krefst lítillar umhirðu.
Kartöflur
Solanum tuberosum
Forspírun útsæðis í apríl

er gerð rúmum mánuði fyrir niðurplöntun. Þú getur keypt sérstakar útsæðiskartöflur sem eru seldar í sumum gróðræktarstöðvum en þær seljast fljótt upp. Það má líka kaupa íslenskar kartöflur í matvöruverslunum og geyma þær í birtu við 10-15°C. Það er best að velja nokkrar tegundir af útsæði til að vera öruggur um góða uppskeru, rauðar kartöflur og gullauga gæti til dæmis verið auðvelt fyrsta val.
Uppsetning kartöflugarðs skal gera í sandblandinni og frjórri mold. Kartöflur er best að rækta í 50 cm breiðum hryggjum þar sem millibil hryggjanna er jafn breitt upp á aðgengið að hryggjunum. Ef um nýjan garð er að ræða er gott að jarðvegsbæta garðinn vel. Sveppamassi, moltumold eða húsdýraskítur skal blanda vel við jarðveginn og mynda síðan hryggina.

Pottakartöflur á svalir er vel hægt að útbúa ef skortur er á plássi. Þá skal botnfylla djúpan pott með 20 cm moldarlagi og grafa útsæðið niður moldina. Þegar grösin fara að vaxa skaltu bæta 10 cm moldarlagi ofan á og endurtaktu þar til potturinn fyllist af mold. Að hausti skaltu síðan tæma út allan pottinn og ættir þá að vera með mörg lög af kartöflum. Enn fleiri hugmyndir geturðu séð á Pinterest-síðu Garðalífs Emblu.
Niðurplöntun er gerð þegar hitinn er kominn yfir 5°C sem er líklega um miðjan maí. Þeim er stungið 5-8 cm djúpt með 30 cm millibil milli kartafla, í tveimur línum sitthvorum megin við hrygginn. Muna að vökva vel þótt rigning sé algeng. Ef vorið er kalt og kólnar í veðri eftir að þú settir kartöflurnar niður er gott að skella acryldúknum yfir moldina og fergja með grjóti á endum. Til að þróa með sér sína tækni í ræktun er gott að skrá dag niðurplöntunar í dagbók og einnig áminningu þrem mánuðum seinna, svo skal sjá hvort allt standist og þá er hægt að reyna að átta sig á hvað betur mætti gera næst.
Umhirða yfir sumarið er fyrst og fremst arfahreinsun og vökvun sem viðhalda mánaðarlega fram í ágúst. Ef kartöflur standa á einhvern hátt upp úr jörðinni skaltu hreykja upp að þeim. Ef þú valdir að hafa kartöflur í ílátum og ætlar þér að rækta þær í nokkrum lögum skaltu fylgjast með vexti kartöflugrasanna og bæta lagi af mold ofan á til að neðri partur kartöflugrasanna fari að mynda rætur og loks fleiri kartöflur.
Uppskera í ágúst er best að gera þegar grösin hafa fallið og jarðvegshiti er enn yfir 8°C, það minnkar hættu á skemmdum. Voru grösin tilbúin út frá áminningunni í dagbókinni ? Nú skaltu rifja upp, gekk vökvun vel, vantaði meiri sól eða gæti verið að það skorti meiri áburð? Garðyrkjubóndinn er sífellt að læra af mistökum og framgangi náttúrunnar.
Geymsluaðferðir : Kartöflur eru bragðbestar nýuppteknar en ef þær eiga að nýtast inn í veturinn skal leyfa þeim að þorna almennilega á dimmum og þurrum stað við 18°C í 10 daga eftir upptöku. Eftir það er gott að finna handa þeim dimma og kalda geymslu, kjörhitastig er 4-5°C og rakastig 80%. Ef uppskeran er mikil er vissara að finna góða lausn svo kartöflurnar endist vel inn í veturinn. Mögulega finnurðu einhvern sem getur gefið þér eða leigt þér pláss í kartöflugeymslu ef þig vantar slíkt svæði heima.
Rauðrifs, sólber og hindber
Ribes spicatum, Ribes nigrum og Rubus idaeus
Kostnaði innfluttra berja væri vel hægt að sporna gegn ef landinn myndi nýta alla þá berjauppskeru sem er nú þegar að vaxa í íslenskum görðum. Þessar þrjár berjategundir höndla vel íslenskt veður, rauðrifsið þolir einnig nokkurn skugga á meðan sólberin þurfa sól. Vanda þarf valið þegar plantað er hindberjaplöntum því þær skríða áfram og verða ágengar í beðum, því taka sumir upp á að planta þeim í stór ker eða mjög afmörkuð beð.
Niðurplöntun allra þriggja tegunda er best að gera að vori eða hausti. Hægt er að planta þeim stakstætt og grafa þá góða holu, setja litla skóflu af sveppamassa eða lúku af þörungamjöli undir plöntuna og vökva vel eftir niðurplöntun. Einnig er hægt að rækta sólber og rauðrifs sem hekkplöntur, þá þarf lengd beðs að vera á hreinu þegar keypt er í beðið (reglan er almennt þrjár plöntur á meterinn). Hekkbeðið skal að lokum vera 50 cm breitt svo hægt er að grafa skurð í beina línu fyrir miðju beðsins (25 cm frá beðamörkum). Í skurðinn skaltu bæta jarðveginn með sveppamassa eða þörungarmjöli og síðan er hægt að koma plöntunum fyrir svo þær standi 2-3 á meterinn. Þegar allt er komið í línu er gott að vökva vel ofan í skurðinn áður en grafið er aftur ofan í skurðinn og í leiðinni öllu plantað í beina línu.
Endurnýja gamla runna í febrúar : Með aldrinum verða runnar þéttvaxnir, jafnvel mosagrónar greinar innan í plöntu og uppskeran fer minnkandi. Þá er gott að byrja á endurnýjun. Sem er útskýrð nánar í Trjá og runnaklippingum/ Endurnýjunun gamalla runna.
Umhirða yfir sumarið er meðal annars að dreifa nokkrum blákornum undir hverja plöntu mánaðarlega frá maí til júlí, ef þú átt nýplantaðar berjaplöntur skaltu sleppa þessarri áburðargjöf þar til á næsta ári. Það er einnig gott að viðhalda arfahreinsun undan svona runnum og fylgjast með ef mikill þurrkur er í sumar að mögulega þarftu að vökva vel moldina, það er best að gera snemma morguns eða að kvöldi þegar sólin er ekki byrjuð að þurrka moldina.
Uppskera hefst í ágúst eða september þegar ber hafa náð réttum lit þ.e. rauðrifs og hindber eru skærrauð og sólber eru svört. Ef þú bíður með það geta fuglar og gestgangandi gert sig líklega til að stelast í runnana sem standa afskiptalausir of lengi. Það getur reynst tímafrekt að tína ber af berjarunnum en hví ekki að bjóða fleirum að hjálpa svo það klárist sem fyrst. Algengast er líklega að sulta úr berjum en einnig er vel hægt að frysta þau og nýta í heilsudrykki eða í kökugerð um jólin.
Rabarbari
Rheum rhabarbarum

Hægt er að finna rabarbara í flestum görðum landsins en ef ekki er gott að fá afleggjara frá nágrönnum frekar en kaupa nýjan. Hægt er að skera í sundur rótarkerfi og fá úr þeim fleiri plöntur, fjölgun er útskýrð aðeins neðar.
Undirbúningur á rabarbarabeði hefst á að ákveða magn. Plantan þarf að minnsta kosti fermetra til að bæta við sig. Skera þarf grastorf og móta til beðið á sólríkum en afskekktu garðsvæði. Jarðvegsbæta líkt og kartöflugarð, með sveppamassa, hrossaskít eða moltu.
Uppskera í maí til júlí þegar rabarbarinn fer að roðna og má þá tína einn og einn rauðan stöngul og nýta í eftirrétti eða skera þá niður í box og frysta fyrst um sinn. Í júní og júlí getur uppskeran verið heilmikil en aldrei skal taka alla stilka af einni plöntu, þá getur hún hreinlega drepist. Við uppskeru er gott að klippa rabarbarablöðin af plöntunni áður en farið er inn. Blöðin geta meðal annars nýst til að hylja arfamikil svæði eða í göngustígana í kartöflugarðinn til að loka fyrir uppgufun moldarinnar.
Umhirða að sumri er ekki mikil nema ef plöntur eru farnar að eldast, þá fer plantan að mynda háa blómstilka upp úr blaðahrúgunni og með því verða stilkarnir næstum óætir. Hægt er að bjarga uppskerunni með því að klippa burt stilkana og leggja á minnið að þessi planta þurfi skiptingu og áburðargjöf í haust. Skráðu það niður hjá þér eða jafnvel stingdu spjóti niður við hlið blómstrandi rabarbarans til að áminna þig fyrir haustið.
Sultugerð að hausti er líklega vinsælasta leiðin til að geyma uppskeru rabarabarans. Í maí mælti ég með að tína fáa rauða stilka af plöntum, skera niður og stinga í box og í frysti. En nú geturðu afþyðið alla uppskeruna og í lokin skaltu fjarlægja allan vökva af rabarbaranum. Með þessu verður uppskeran ekki eins súr þegar þú byrjar að sulta.
Fjölgun í september skal gera ef rabarbarinn þinn byrjaði að blómstra í sumar. Þá er hægt er að stinga í gegnum rótarkerfi plöntunnar með stunguskóflu. Vandaðu staðsetninguna fyrir stungusárið þar sem hver helmingur þarf að innihalda rætur og blaðstilk til að úr verði ný planta. Bæta þarf sveppamassa eða jafnvel húsdýraskít í gömlu holuna áður en þú plantar einum parti ofan í holuna á ný. Það er gott að rifja upp hvort þú nýttir nægilega vel uppskeruna, ef þér finnst þú eiga of mikið er núna tími til að potta með næringarríkri mold þeim plöntum sem þér finnst of aukið, mundu að vökva vel og geyma þar sem potturinn veltur ekki um koll þar til nýr eigandi finnst. Rabarbari er tilvalin innflutningsgjöf handa nýjum garðeigendum.
Graslaukur og hjálmlaukur
Allium schoenoprasum og Allium ×proliferum

Graslaukur er algeng tegund í flestum eldri görðum landsins, oft hefur hún reyndar tínst á milli garðeigenda og ekki þótt nægilega merkileg. Ég hvet þig til að leita hana uppi og ef hún er orðin samofin grasi og arfa skaltu grafa hana upp og bæði uppræta grasvöxtinn og skipta henni upp í leiðinni. Lýsing á því sérðu neðar í textanum. Ekki þarf plantan mikið pláss og nýtist vel í beðum eða í pottum nálægt útidyrum svo að aðgengið sé gott á matmálstímum. Síðan er það stóri bróðir graslauksins sem kallast hjálmlaukur, hann er bæði grófari og líka bragðmeiri. Hann vex upp á fáum stilkum og myndar á toppi sínum litla lauka sem líkjast helst scarlotlaukum. Uppskeran er ekki jafn regluleg á þessarri tegund og því er fínt að gefa henni pláss í garðbeði innan um aðrar plöntur.
Við niðurplöntun graslauks og hjálmlauks er gott að setja handlúku af þörungarmjöli eða sveppamassa neðst í holuna og vökva vel eftir á. Fylgjast þarf með vökvun fyrst um sinn en þar sem þetta eru fjölærar tegundir sem munu vaxa og dafna í beðunum er líklegt að rótarkerfi dreifi meira úr sér og sé þá minna háð vökvun með aldrinum.
Uppskera graslauks er gerð regulega í maí til júlí, þá má klippa niður blöðin í 10-15 cm hæð og nýta í matargerð. Best er að nýta uppskeruna beint af plöntu og því er óþarfi að klippa nema rétt fyrir matmálstíma. Endilega reyndu að finna sem flest tækifæri til að nýta þetta ódýra krydd í matseld frá maí til júlí en blómin vaxa í júní og eru bragðgóð fegra salatskálina.
Uppskera og fjölgun hjálmlauks er best að gera í júlí. Þá hefur plöntunni gefist tími til að mynda þessa lauka efst á blaðstilknum. Þá geturðu klipið laukana efst af og nýtt í matseld. Ég mæli með að gefa minnstu laukunum framhaldslíf og stinga þeim beint í moldina, hvort sem í nágrenni við móðurplöntuna eða í potta, þá færðu enn meiri uppskeru á næsta ári.
Umhirða að sumri er lítil í kringum graslaukinn og hjálmlaukinn nema þessi mánaðrlega arfahreinsa í kringum plönturnar.
Skipta upp graslauk er hægt að gera bæði ef grasvöxtur hefur náð yfirráðum yfir plöntuna eða plantan er orðin of stór. Þá skal grafa alla plöntuna upp og losa moldina burt af rótarkerfinu. Þegar þú skoðar rótarkerfið geturðu séð lita-og lögunarmun á grasi og graslauk. Losaður allt óþarfa burt og svo geturðu stungið litlu garðverkfæri í gegnum allan hnausinn til að losa um rótarkerfið og þannig mótað margar litlar plöntur. Ef graslaukshnausinn er mjög stór geturðu einnig grafið hana upp og stungið stunguskóflu fyrir miðri plöntu og þannig skorið plöntuna niður í nokkra helminga. Bæta þarf holum fyrir nýjar plöntur eða koma þeim fyrir í pottum ef þú ætlar að gefa öðrum. Mundu að bæta sveppamassa eða þörungarmjöli í holurnar og í bland við pottamoldina áður en allt er plantað niður og vökvað vel.
Frekari heimildir í fræðibókum :
Hildur Hákonardóttir. (2005). Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins. Bókaútgáfan Salka ehf.
Óli Valur Hansson. (1978). Matjurtabókin - Garðyrkjufélag Íslands, Prentsmiðjan Edda hf.
Vilmundur Kip Hansen. (2011). Árstíðir í garðinum. Sumarhúsið og garðurinn ehf
Comments