top of page

Englandsferð

4837e13c3263e2745e5a5ecd28cc502d.jpg
England 2017 - 20. Júní 2018

Ég var svo lánsöm að fá að fara til Englands í þrjá mánuði - frá marsmiðju til júnímánaðar 2017. Þar kynntist ég fullt af fólki sem hefur áhuga á fjölæringum og almennri garðyrkju. Ólík áhersla  og reynsla í görðunum þeirra gerði hvern dag hjá mér lærdómsríkan. Ég fékk að fylgjast með þremur görðum í útjaðri Bathborgar og sjá breytingar garðanna frá byrjun vors og að vorslokum.  Á milli vinnudaga heimsótti ég tuttugu garða í sjö héröðum í Suðvestur-Englandi.

Garðyrkja er tekin mjög alvarlega í Englandi og sérstaklega í þeim hluta sem ég skoðaði, þar var þetta mikilvægur partur af menningunni og reynslan fer aftur um margar aldir. Fyrirlestrar eru haldnir innan garðyrkjufélaga þar sem erlendir jafnt sem innlendir fagaðilar segja frá reynslusögum. Auk þess eru garðaheimsóknir daglega um allt land. Sumir hanna stærðarinnar garða til þess eins að selja inngang inná þá og leyfa almenningi að njóta. Enn fleiri opna garða sína til styrktar góðra málefna, þessar opnarnir eru sjálfsagt jafn mikilvægar garðaeigendum sem og gestanna, því hver er tilgangur í öllu erfiðinu sem fylgir garðyrkja ef þú nýtur þess ekki með neinum?

 

Stórar garðahátíðir eru staðsettar víða um land yfir sumarmánuðina og langt fram á haust. Þar mæta margar gróðrarstöðvar með troðfulla fluttningabíla af plöntum og selja yfir helgina. Söluaðilar frá öllum hornum garðyrkjunnar geta mætt og bæði auglýst starfsemi sína sem og selt, gervigrasmottur, vökvunarkerfi, bekkir og borð, blómakoddaver, garðaskór og broddgaltarhús voru til dæmis til sölu.  Englendingar eru einnig mjög hagsýnir og því eru heilmargar sölur með notuð- og/eða antíkhúsgögnum. Stærsta garðhátíðin er án efa Chelsea Show sem haldin er árlega á miðri London. Þar keppast garðahönnuðir um að gera bestu hönnunina og ná vinsældarverðlaunum. Þar hanna einnig gróðarstöðvar sölusvæðin sín með þvílíkri snilld.

Í Englandi hefur garðyrkjan verið partur af menningararfi Englendinga í margar aldir. Sveitasetrin hér áður fyrr hjá þeim best settu höfðu alltaf vel hirta og fallega skrúðgarða sem á vissan hátt urðu tákn velmegunar í ensku samfélagi.

Englendingar hafa alla tíð verið duglegir að ferðast og fræðast um önnur lönd og grætt gríðarlega á ferðalögum sínum bæði með því að eigna sér aðrar lendur en einnig með því að læra af menningararfi annarra landa og fært hluta þeirra heim til Englands, eins og sést í breska safninu í London. Garðyrkjan í Englandi græddi líka á þessum ferðalögum og þar sem veðurfar og loftslag er milt í Englandi gátu þeir flutt gríðarlegan fjölda plantna frá ólíkum heimshornum og haldið þeim á lífi, hvort sem inni eða úti, milli landa.

Loftslag Íslands hefur orðið mildara með árunum og má með sanni segja að margt í enskri garðyrkju mætti flytja heim til Íslands ef áhuginn væri nægur. Á Íslandi höfum við nóg af garðsvæðum, mild sumur og næga vætu til að halda flestum gróðri við. Nú þarf bara að safna reynslu um plöntutegundir sem höndla vindinn og láta ekki frostið á veturna stöðva okkur.

Ólíkar áherslur

England 2017 - 3. Júlí 2017

Ólíkar áherslur - Matjurtir

Í Englandi lærði ég á ólíkar áherslur í garðyrkju, þótt áhugi minn sé aðallega á fjölæringum voru mörg verkefni tengd matjurtunum og áður en ég vissi af hafði sú iðn fangað athygli mína af mun meiri krafti en ég bjóst við.  Flestir hafa einhversskonar matjurtargarð í sveitum Englands. Garðarnir voru flestir með ákveðnum barrokkstíl, bein form og vel afmörkuð beð.

Í öllum matjurtagörðunum voru alltaf ákveðnar plöntutegundir áberandi; sánu blaðsalat (sem var þá sáð hálfsmánaðarlega), aspas (þótt það sé matjurt sem getur verið erfitt að halda á lífi), nokkrar baunategundir (Broad Beans, French Beans o.fl.) og nokkrum káltegundir (ef týnt var af þeim reglulega gaf plantan af sér fram yfir jól). Önnur jurt sem sást í hverjum matjurtagarði (þrátt fyrir að vera ekki matjurt) voru ilmbaunir (Sweet Peas; sjá mynd neðst) sem notuð var til að klippa af og setja inn í vasa. Í rauninni skildi ég aldrei málið með þessar ilmbaunir þar sem þetta er mjög viðkvæm klifurplanta sem þarf sérstaka klifurgrind og aðstoð við að byrja að klifra, en um leið og hún byrjar að blómstra vinnur hún hug flestra.

 

Gróðurhús sást í öllum matjurtagörðum enda Englendingar hrifnir af að rækta tómata og jafnvel chili plöntur innandyra. Ætiþistill (Artichoke; sjá mynd beint hér fyrir neðan) var einnig mjög vinsæll í matjurtargörðum en það er tröllvaxin planta sem blómstrar ekki fyrr en um miðjan júlí, en þar sem ég var komin aftur til Íslands þá fékk ég mynd senda til mín af blóminu sjálfu.

 

Minnkun uppgraftar

Í Englandi fór ég á einn fyrirlestur hjá Charles Dowding sem hefur sérhæft sig í að grafa ekki upp matjurtagarðinn sinn (No-Dig Method) líkt og iðulega er gert. Hann hefur skrifað fjölda bóka um sína aðferð á að einfalda matjurtagerð.

Þessa aðferð hans er vel hægt að færa yfir á flestar greinar garðyrkjunnar.

Charles Dowding leggur í staðinn meiri áherslu á moltuvinnuna (heimkynni ormanna), bætir svo við heimagerðum áburði í beðin og lætur ormana um uppgröftinn. Ef hugsað er vistfræðilega um jarðveg er auðvelt að sjá að vistkerfið undir plöntunum er náttúrulegast ef við rífum það ekki í sundur með uppgreftri á hverju ári og látum ormana frekar draga næringuna úr nýjum áburði niður í jarðveginn.

Á fyrirlestrinum mætti heilmikið af garðáhugafólki sem vildi nýta sér aðferðir Charles til að einfalda fyrir sér garðyrkjuna enda hefur Charles þróað aðferðina yfir á flest svið garðyrkjunnar. Eitt ráð sem flestir geta t.d. tileinkað sér er að í arfahreinsun eigi að snúa

arfarótunum upp til sólu daglega svo að arfinn fái aldrei tækifæri á að sá sér.

20 garðar í 6 héruðum

England 2017 - 25. Ágúst 2017

Þegar áhugasviðið eru garðaskoðanir og plönturýni eru þrír mánuðir í Englandi alls ekki nægur tími, með þéttu skipulagi gat ég skoðað 20 garða en þrjá þeirra fékk ég að fylgjast með frá lok vetrar til byrjun sumars og sjá þau garðverk sem ég fékk í hendurnar dafna. Héröðin voru því að lokum sex þó mestum tíma hefði verið eytt í þeim þremur umhverfis Bath og Cotswold útisvæðin (Gloustershire,Somerset og Wiltshire). Einnig fékk ég að vinna í garði í Herefordshire og heimsótti garða á suðurströndinni bæði í Sussex og Cornwall.

Það er alveg magnað að fylgjast með garðmenningunni í Englandi sem hefur þróast á tugum ára. Þar er til dæmis einstaklega auðvelt að heimsækja garða með því einu að vera virkur þáttakandi í National Garden Scheme (NGS). Árlega eru tímarit send í heimahús og þar með auglýst dagsetningar á opnum garðadögum. Í mörgum tilfellum eru þetta venjulegir einkagarðar hjá áhugafólki eða fagfólki sem vill bjóða almenningi að njóta garðaprýðinnar einn dag á ári. Oftast er rukkað inná þessa opnu garðdaga og aðgangseyririnn fer til góðra málefna. 

Mín fyrsta heimsókn á slíkan opnunardag var í Algars Manor- og Mill House gardens í Iron Acton þar sem tveir garðar liggja sitthvoru megin við veg, en húsin eru nú bæði íbúðarhús en annað þeirra var eitt sinn mylla. Lækjarstraumur liggur undir húsin og hafa því garðarnir verið hannaðir útfrá læknum. Í garðinum eru ógrynni blómsturfagurra runna líkt og magnolíutré og camillutré svo ekki sé innst á litríku blöðin á hlyntegundunum.

 

Í heimsókn minni í Herefordshire fór gestgjafi minn Noel Kingsbury með mig í tvo garða sem selt er aðgang að. Fyrri garðurinn Westonbury Mill Water Garden er hannaður sérstaklega með almenning í huga - en hann eiga gömul hjón sem hafa það sem seinni starfsvettvang að selja aðgang að fallega

garðinum sínum. Í gegnum garðinn liggur árfarvegur og því er jarðvegurinn bæði frjór og rakur. Plönturnar vaxa því uppúr öllu valdi og maður upplifir sig dvergvaxinn í göngu sinni um þennan ævintýragarð. Milli svæða í garðinum eru ýmis garðskraut (follies) líkt og glerföskuhvelfing og afrískt stráhús. Eigendurnir hafa sitt eigið hús með útsýni yfir garðinn en lækur meðfram garðpallinum lokar þá af og frá umgangi garðgesta.

Síðari heimsókn mín með Noel var í Hergest Croft garden sem var mun skipulagðari en sá fyrri sem ég fór með honum í. Það hefur líklega verið ættaróðal hér áður fyrr og er garðsvæðið gríðarstórt. Vert er að minnast að í þeim garði er eina steinhæðin sem ég sá í allri minni Englandsferð, en samkvæmt Noel er steinhæðahönnunin gamla orðin barn síns tíma, arfinn getur verið algerlega stikkfrí undir stærstu grjótunum og því hálfvonlaust að ná ákveðnum tegundum úr umferð. Í Hergest Croft Garden er hægt að kaupa sér heilsárs aðgengi og þá er hann opinn hvort sem að nóttu eða degi, allan ársins hring. Ég var heppin að kíkja í þennan garð í byrjun maí einmitt þegar blómarunnarnir keppast við að monta sig af skrúði sínum.

Mín uppáhalds garðaheimsókn var þegar bæjarbúar Marshfield buðu uppá opinn garðadag í níu einkagörðum. Í NGS bæklingnum var opnunardagurinn auglýstur og borgaði fólk einu sinni fyrir aðgengi inní þá alla. Svo var hægt að kaupa sér sultuskonsu og te í einum garðanna. Marshfield sem er um 2000 manna bær rétt norðan við Bath, og hafði helstu þjónustu fyrir dreifbýlið í Cotswold sem og tímabundna heimilið mitt. Þar var hægt að fara á þorpsmarkaðinn á föstudögum og til að brjóta upp hversdagsleikann var hægt að fara á local pöbbin í bænum. En þennan dag fékk ég að sjá inní einkagarða bæjarbúa þar sem sást hvað enskir íbúar eyða miklum tíma í garðsvæðunum sínum. Í hverjum og einum mátti sjá matjurtagarð með sætuertum, jarðarberjum og kálgarði. Auk þess voru grasþekjur með mjúkum köntum með allavegana rósarunna, túlipönum, liljur og tómataplöntur. Þessi hugmynd er ein af þeim sem mér þótti einna mikilvægast að færa yfir á íslenska grundu - garðyrkja er ekki þess virði ef enginn er til að njóta garðsins. Sumir bæir í Englandi hafa opnað garða sína árlega og þá oftast til styrktar góðra málefna. Við eigum ógrynni af frábærum bæjarhátíðum á Íslandi nánast í hverjum bæ landsins en lítið hef ég heyrt um það að fólk bjóði á slíkum hátíðum gestum uppá að skoða einkagarðana í þeim tilgangi að njóta garðsvæðisins og plöntuúrvalsins.

Þetta myndi ég svo sannarlega vilja sjá meira af á Íslandi, því það eru margir 

einkagarðar á Íslandi sem mætti svo sannarlega vera

sýnilegri að mínu mati.

Garðahátíðir

England 2017 - 30. Okt. 2017

Hér áður fyrr var England gríðarlega stéttaskipt og á sama tíma stóð garðyrkjan sem hæst. Ríkidæmið sást á stærð ættaróðalsins og garðsins í kring með tilheyrandi fjölda garðyrkjumanna. Slík óðöl erfast oftast milli ættleggja allt til dagsins í dag og er slíkum görðum oft viðhaldið og jafnvel opnir almenningi á auglýstum dögum. Þar sem stéttaskiptingin er ekki jafn áberandi í dag (þó hún sé vel til staðar) eiga afkomendur ekki alltaf jafn auðvelt með að halda við eigninni uppi á eigin spýtur. Þar má t.d. nefna Great Chalfield, tignarlegt en tiltölulega „lítið“ óðal með síki umhverfis garðinn, kirkju og nokkrum útihúsum. Allt er þetta með miklum gothic húsastíl þar sem grjótskúltúrar eru á öðru hverju horni. Eigendurnir sem erfðu eignina náðu ekki að halda uppi viðhaldi óðalsins og völdu sér þann úrkost að selja National Trust eignina. National Trust kaupir stundum svona eignir og viðheldur þeim en leyfir erfingjunum að leiga part af eigninni með því skilyrði að almenningur fái takmarkað aðgengi að sögulegum minjum óðalsins. Þetta hlýtur að vera erfitt val fyrir erfingjana en gríðarlegur fengur fyrir ensku þjóðina og túrista eins og mig að fá að skoða slíkar minjar. Eins fyrir mitt leiti fannst mér notalegt að vita að búið var í eigninni en hún ekki einungis til sýnis.

Sum fyrrum ættaróðöl hafa færst eigu ættarinnar til einhverns ríkisbubba. Þar sem áherslur nútímans eru breyttar og færri einstaklingar í hverri fjölskyldu þykir mér magnað hvernig lítil fjölskylda getur nýtt sér allt það landsvæði sem tilheyrir gömlum óðölum, hvað þá að oft var þetta annað eða þriðja heimili eigandans. Eignin sem áður var nýtt til nytja, undir dýr eða akur eru nú til tómstunda, tennisvöllur, sundlaug, stærðarinnar trjáhús, tjarnir til að sigla á og garðar við mismunandi tilefni. Sumir ríkisbubbar nýta þó landsvæði sín til að bjóða almenningi að sjá eignir sínar. Rauði krossinn heldur til dæmis garðhátíð árlega í einu slíku, Newport house rétt við Whales. Eins og ég kynnti í fyrra bloggi er hægt að heimsækja fallega garða um allt England og eru einnig heilmargar veislur haldnar yfir sumartímann sem kallast Garden festival eða garðhátíðir. Oftast eru þær til styrktar góðra málefna og koma þar saman margir plöntusalar og sölumenn af öllum öðrum toga og selja afurðir sínar á básum við fallegan garð líkt og hjá Newport house.

Til landamæra Whales fór ég með Derry Watkins sem á gróðræktarstöðina Special Plants rétt fyrir utan Bath. Ég fékk að kynnast garðvinnunni bæði heima í gróðræktarstöðinni en einnig að selja plöntur með Derry á fjórum garðhátíðum. Enskar garðhátíðir er eitthvað sem ég mæli með fyrir alla garðáhugamenn, garðyrkja er endalaus viskubrunnur og á slíkum hátíðum kemst fólk á flug bæði í möguleikum í sínum eigin garði eða kynnast nýjum tegundum. Svo auðvitað eru veitingar til staðar líkt og „Cream Tea“(sultuskonsa og tebolli) eða kjöt-og kjúklingabökur.

Mín fyrsta garðhátíð var án efa sú formlegasta, en það var í Westonbirt sem er betur þekkt fyrir trjásafnið sitt (Arboretum). Robert Stayne Holford erfði Westonbirt fyrir meira en 170 árum. Þar átti hann ættaróðal í mörg ár, með stærðarinnar garði og byrjaði að safna sjaldgæfum trjátegundum með hjálp sonar síns. Nú er húsið hans orðinn einkaskóli og trjásafnið inniheldur nú um 15.000 trjátegundir. Garðurinn skiptist til vesturs í villtan hluta, til austurs í formlegan barrokkhluta með rósahúsi. Til suðurs móts við húsið er meira um garðeiningar (follies) eins og tjarnir, kirkja, gosbrunnar og ha-ha (uppbyggður hæðarmismunur til að halda dýrunum frá án sýnilegra takmarkana).

 

Westonbirt var ekki einungis heimsóttur vegna garðsins heldur var þessa helgi boðið uppá ótal fyrirlestrar fróðra garðhönnuða í kennslusölum hússins. Ég og vinkona mín Anna Rún Þorsteinsdóttir fórum saman að fylgjast með þremur hönnuðum kynna fyrir okkur sína garðstíla og reynslusögur. Ann-Marie Powell með sína litríku og fjörlegu garða og Arne Maynard með rómantískt plöntuval og leiðir sínar til að gera hvern garð sérstakan uppá hvert smáatriði líkt og ískrið í garðhliðinu. Síðast en ekki síst var það Noel Kingsbury en ég skrifaði um verkefni hans í bs.ritgerðinni minni. Það var mjög gaman að sjá mannin í eigin persónu lýsa rannsóknum sínum um leiðir til að forðast mikla afahreinsun með því að hanna vistvænni og sjálfbærari beð (meira um hann síðar).

2. Ólíkar áherslur
3. 20 garðar í 6 héruðum
4. Garðahátíðir

Síðustu garðahátíðina mína tók ég vikuna fyrir heimför og ferðaðist þá með Derry Watkins suður á strendur í Sessexhrepp. Þar gistum við heima hjá stofnanda enska garðskólans, Rosemary Alexanders og fékk að kíkja í hennar garð. Hátíðin var haldið á gríðarstórum krikketvelli fyrir framan Stansted húsið. Þar hópuðust um 400 ólíkir sölubásar allt frá því að selja gervigras yfir í skartgripi. Brassókvartett lék tónlist og gekk á milli svæða og spiluðu á trompet, trommur og sungið í gjallarahorn. Krikketvöllurinn var ekki það eina á garðsvæði Stansted einnig var þar gróðræktarstöð, veitingarstaður og völdundarhús. Þar fór ég bretunum til mikillar undrunar í fyrsta sinn í völundarhús, eini fullorðni einstaklingurinn sem fylgdi ekki barni. 

Ekki má nú gleyma að nefna stærstu garðhátíð Englands sem ég var nú ekki svo fræg að borga mig inná – en það er auðvitað ChelseaShow. Vikulöng veisla og garðhönnunarkeppni. Ég fékk þó að kynnast hvernig er að taka þátt í slíkri keppni í gegnum gestgjafa minn, Alison Jenkins. Hún fór að aðstoðaði við garðplöntun í einum keppnisgarði. Þetta er allt full mikið glamúr fyrir minn smekk og kunni ég því betur við að kynnast frekar alvöru görðum þar sem plöntur eru plantaðar án pottsins í moldina og fær að sitja þar í fleiri ár en ekki einungis eina viku. Þrátt fyrir þessa skoðun mína er þetta þó áhugaverð keppni og margir njóta þess að horfa á þetta á imbanum á hverju ári eða  kaupa sig

inn á sýninguna. Þarna eru tískuplöntur hvers árs sýndar og auglýst ýmis starfsvið

innan garðyrkjunnar þannig er þetta bæði til gagns og gamans. Væri gaman

að sjá hvort hægt væri að horfa á keppnina á næsta ári

í íslensku sjónvarpi.

  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon

© 2018 by S. Embla Heiðmarsdóttir. Proudly created with Wix.com

bottom of page